Heim á ný...

Hver vegur að heiman er vegurinn heim, farinn héðan og kominn allt annað. Nýtt en samt eitthvað svo afskaplega gamalt.

Vefslóðin á hinn nýja stað kúrbítsins er www.zucchine.blogspot.com.


Misjafnt...

Skapa peningar hamingjuna? Svarið getur verið að hluta til jákvætt, á sinn hátt. Hamingjan felst í yndislegum andartökum sem verða að stórfenglegum minningum. Minningum um allt það góða sem gerist í lífinu. Stundum eru það peningar sem mynda þær aðstæður sem skapa yndislegar minningar. Stundum en ekki næstum því alltaf.

Stundum geta því peningar verið að hinu góða, stundum ekki.


Í snertingu við það sem skiptir máli...

Hestamennskan kemur manni í snertingu við svo ótal margt af því sem gerir Ísland að stórkostlegum stað. Sérstöðu landsins í allri sinni dýrð á svo dásamlegan hátt.

Ósnortin náttúra, víðátta, hreint loft, hreinskiptið fólk, fallegir hestar og fegurðin í umhverfinu.


Synda einn eða saman, móti eða með...

Það er einhvern veginn svo skrýtið að búa á eyju. Erfitt að flýja, sjá eigið umhverfi úr fjarlægð á hlutlausan hátt. Innstreymi hugmynda og leitni þjóðfélagsins er oft einstrengislegt og oft á tíðum fátæklegt. Hér er margt en samt svo fátt. Hjarðáhrifin eru sterk og erfitt að synda á móti straumnum. Allt er hægt en oft á tíðum erfitt. Aðgerðir fólksins stjórnast oft ekki af því hvað það sjálft vill. Það stjórnast af því hvernig það telur að aðrir munu upplifa það. Oft lifir fólk fyrir aðra og í gegnum aðra. Fólk sem vill eitthvað annað syndir oft saman. Samsundið verður fljótt mainstream.

Í viðjum ónauðsynleikans...

Lífið er fullt af svo mörgu. Áreiti og freistingar. Sumt hjá sumum en annað hjá öðrum. Hefst með einu skipti en verður fljótt að vana. Tilgangurinn óljós en afleiðingin ljós - tímaeyðsla og tilgangsleysi.

Stundum er gott að hverfa burt í nokkurn tíma, brjóta upp mynstrið og kollsteypa tilverunni. Ný sýn á allt og stundum alla. Horfa á hversdagslegt líf sjálfs síns með gagnrýnum augum. Oft kemur í ljós að stór hluti af vönum hversdagsins hafa þann eina tilgang að drepa tímann.

Einkennileg notkun á tíma þar sem enginn lifir að eilífu...


Sáttur...

Það er góður eiginleiki að vera sáttur. Sáttur við sjálfan sig, alla menn og hvert einasta dýr. Að vera sáttur er ekki það sama og vera saddur. Saddur af metnaði, framförum, markmiðum og elju. Stundum er hollt að horfa um öxl, fylla hugann af minningum og velta fyrir sér leiðinni að þeim stað þar sem maður er staddur. Kúrbíturinn er sáttur við sjálfan sig, jákvæður í eigin garð og horfir fram á veginn. Horfir fram á veginn í þeirri von að bæta sig sem persónu og þær undirstöður sem hann vill standa fyrir í lífinu.


Yndislegt líf...

Á fögrum sumardegi með yndislegu fólki í ferð á vit ævintýra. Forréttindi. Hestar, mannfólk, fallegt umhverfi, matur og vín skipta öllu máli. gleyma öllu nema stund og stað. Allt að baki og ekkert framundan í fjarska. Það er "núið" sem leikur aðalhlutverkið, hinum tíðunum ekki boðið hlutverk á þessu leiksviði lífsins.

Áfangastaðurinn er falleg sumarhöll um lukin skógi með hesta allt um kring. Ferðalangana klæjar í lófana og iða í skinninu eftir stóru stundinni. Stundin rennur upp, lagt er á gæðingana og riðið um fornar moldargötur í glitrandi kvöldsólinni. hið óútskýranlega samband á milli manns og hests verður sterkara en aldrei fyrr. Menn, hestar og náttúran verða að órjúfanlegri heild og upplifunin einstök. Landslagið verður að stórfenglegu listaverki sem í síbreytileika sínum lifir þar til sólin sest. Daginn eftir gerist alllt á ný en á allt annan hátt. Allt verður til, blómstrar, fölnar og deyr. Enn og aftur, aftur á ný.

Þó sumt taki enda þá tekur annað við. Ósambærilegt, ólíkt og á allt annan hátt. Stórkostlegar kræsingar, unaðsleg vín og skemmtilegur félagsskapur. Lífsgæði sem gera nánustu nútíð að forvitnilegu ævintýri. Undir berum himni situr fólkið, klætt í takt við veðráttuna. Uppfylltar langanir í framboðnar kræsingar. Kræsingarnar bráðna í munnum fólksins og vínið setur punktinn sem skiptir máli.

Þegar nóttin færist yfir er safnast saman við bálköstinn. Kveikt er upp í köstinum og eldsmaturinn verður fljótt eldinum að bráð. Þétt í hring situr fólkið og horfir á eldinn með einhverri stóískri ró. Fram á rauða nótt er drukkið, sungið og skrafað.

Á síðustu metrunum týnist fólkið inn í draumlandið, hvert í sínu lagi en sumir saman. Sumir af ásetningi en aðrir án þess að ráða eitt né neitt. Flestir komast í hvílu en fáeinir ekki svo langt.

Stundum getur lífið verið stórkostlegt...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband