Færsluflokkur: Hestamennska

Í snertingu við það sem skiptir máli...

Hestamennskan kemur manni í snertingu við svo ótal margt af því sem gerir Ísland að stórkostlegum stað. Sérstöðu landsins í allri sinni dýrð á svo dásamlegan hátt.

Ósnortin náttúra, víðátta, hreint loft, hreinskiptið fólk, fallegir hestar og fegurðin í umhverfinu.


Yndislegt líf...

Á fögrum sumardegi með yndislegu fólki í ferð á vit ævintýra. Forréttindi. Hestar, mannfólk, fallegt umhverfi, matur og vín skipta öllu máli. gleyma öllu nema stund og stað. Allt að baki og ekkert framundan í fjarska. Það er "núið" sem leikur aðalhlutverkið, hinum tíðunum ekki boðið hlutverk á þessu leiksviði lífsins.

Áfangastaðurinn er falleg sumarhöll um lukin skógi með hesta allt um kring. Ferðalangana klæjar í lófana og iða í skinninu eftir stóru stundinni. Stundin rennur upp, lagt er á gæðingana og riðið um fornar moldargötur í glitrandi kvöldsólinni. hið óútskýranlega samband á milli manns og hests verður sterkara en aldrei fyrr. Menn, hestar og náttúran verða að órjúfanlegri heild og upplifunin einstök. Landslagið verður að stórfenglegu listaverki sem í síbreytileika sínum lifir þar til sólin sest. Daginn eftir gerist alllt á ný en á allt annan hátt. Allt verður til, blómstrar, fölnar og deyr. Enn og aftur, aftur á ný.

Þó sumt taki enda þá tekur annað við. Ósambærilegt, ólíkt og á allt annan hátt. Stórkostlegar kræsingar, unaðsleg vín og skemmtilegur félagsskapur. Lífsgæði sem gera nánustu nútíð að forvitnilegu ævintýri. Undir berum himni situr fólkið, klætt í takt við veðráttuna. Uppfylltar langanir í framboðnar kræsingar. Kræsingarnar bráðna í munnum fólksins og vínið setur punktinn sem skiptir máli.

Þegar nóttin færist yfir er safnast saman við bálköstinn. Kveikt er upp í köstinum og eldsmaturinn verður fljótt eldinum að bráð. Þétt í hring situr fólkið og horfir á eldinn með einhverri stóískri ró. Fram á rauða nótt er drukkið, sungið og skrafað.

Á síðustu metrunum týnist fólkið inn í draumlandið, hvert í sínu lagi en sumir saman. Sumir af ásetningi en aðrir án þess að ráða eitt né neitt. Flestir komast í hvílu en fáeinir ekki svo langt.

Stundum getur lífið verið stórkostlegt...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband