Færsluflokkur: Lífið & tilveran

Misjafnt...

Skapa peningar hamingjuna? Svarið getur verið að hluta til jákvætt, á sinn hátt. Hamingjan felst í yndislegum andartökum sem verða að stórfenglegum minningum. Minningum um allt það góða sem gerist í lífinu. Stundum eru það peningar sem mynda þær aðstæður sem skapa yndislegar minningar. Stundum en ekki næstum því alltaf.

Stundum geta því peningar verið að hinu góða, stundum ekki.


Synda einn eða saman, móti eða með...

Það er einhvern veginn svo skrýtið að búa á eyju. Erfitt að flýja, sjá eigið umhverfi úr fjarlægð á hlutlausan hátt. Innstreymi hugmynda og leitni þjóðfélagsins er oft einstrengislegt og oft á tíðum fátæklegt. Hér er margt en samt svo fátt. Hjarðáhrifin eru sterk og erfitt að synda á móti straumnum. Allt er hægt en oft á tíðum erfitt. Aðgerðir fólksins stjórnast oft ekki af því hvað það sjálft vill. Það stjórnast af því hvernig það telur að aðrir munu upplifa það. Oft lifir fólk fyrir aðra og í gegnum aðra. Fólk sem vill eitthvað annað syndir oft saman. Samsundið verður fljótt mainstream.

Í viðjum ónauðsynleikans...

Lífið er fullt af svo mörgu. Áreiti og freistingar. Sumt hjá sumum en annað hjá öðrum. Hefst með einu skipti en verður fljótt að vana. Tilgangurinn óljós en afleiðingin ljós - tímaeyðsla og tilgangsleysi.

Stundum er gott að hverfa burt í nokkurn tíma, brjóta upp mynstrið og kollsteypa tilverunni. Ný sýn á allt og stundum alla. Horfa á hversdagslegt líf sjálfs síns með gagnrýnum augum. Oft kemur í ljós að stór hluti af vönum hversdagsins hafa þann eina tilgang að drepa tímann.

Einkennileg notkun á tíma þar sem enginn lifir að eilífu...


Sáttur...

Það er góður eiginleiki að vera sáttur. Sáttur við sjálfan sig, alla menn og hvert einasta dýr. Að vera sáttur er ekki það sama og vera saddur. Saddur af metnaði, framförum, markmiðum og elju. Stundum er hollt að horfa um öxl, fylla hugann af minningum og velta fyrir sér leiðinni að þeim stað þar sem maður er staddur. Kúrbíturinn er sáttur við sjálfan sig, jákvæður í eigin garð og horfir fram á veginn. Horfir fram á veginn í þeirri von að bæta sig sem persónu og þær undirstöður sem hann vill standa fyrir í lífinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband